BUGL


BUGL


 Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Dalbraut í Reykjavík
BUGL er til húsa að Dalbraut í Reykjavík

Í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga er lögð megináhersla á forvarnir þar sem tekist er á við vanda barns eins fljótt og auðið er. Í sumum tilfellum þarf að fylgja barninu eða unglingnum eftir um langan tíma í einhverri mynd til að hindra að vandinn aukist eða verði varanlegur.

Hlutverk barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) er þríþætt; að veita meðferð í formi bráða- og sérfræðiþjónustu, vera leiðandi í kennslu og ráðgjöf til annarra þjónustuaðila um geðheilbrigðismál barna og unglinga og að stunda rannsóknir. Á BUGL er unnið þverfaglega og beinist vinnan að barninu sjálfu og umhverfi þess, svo sem foreldrum, heimili og skóla.

Göngudeildarþjónusta. Í takt við breyttar áherslur í  meðferðarþjónustu BUGL hefur hlutur göngudeildar- og vettvangsþjónustu farið vaxandi. Er lögð áhersla á að barnið eða unglingurinn geti verið áfram í sínu daglega umhverfi en sæki þjónustu til göngudeildar BUGL. Hér á eftir er fjallað í stuttu máli um nokkur þeirra fjölbreyttu úrræða sem þar eru í boði fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Bráðaþjónusta er veitt á göngudeild BUGL. Þar starfar þverfaglegt bráðateymi félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðings, sálfræðings og sérfræðilæknis og er það öllum aðgengilegt á hefðbundnum vinnutíma. Teymið tekur á móti símtölum og metur hvort mál krefjist tafarlausrar íhlutunar. Í þeim tilvikum er bókað bráðaviðtal samdægurs eða daginn eftir. Auk þess veitir bráðamóttaka geðsviðs LSH á Hringbraut bráðaþjónustu með aðkomu sérfræðings í Barna- og unglingageðlækningum.

Styrkur bráðateymisins liggur í þverfaglegri samvinnu sem auðveldar að koma málum fljótt í réttan farveg og hugsanlega koma í veg fyrir bráðainnlagnir.

Lífið kallar er stuðningsúrræði sem fagaðilar á göngudeild veita utan hefðbundins vinnutíma. Verkefnið miðar að því að styrkja börn og unglinga á aldrinum 13–18 ára sem misst hafa lífslöngunina vegna áfalla eða vanlíðanar af ýmsum orsökum.

Meðferðin byggir á þeirri hugmynd að þessi missir sé tímabundinn og viðkomandi geti með viðhorfsbreytingu öðlast lífslöngun á ný. Hún felur meðal annars í sér að barnið endursegir fortíðarsögu sína með breyttum áherslum og megininntakið er fjölskyldan, tengslin og lífsgleðin sem verndandi öryggisnet. Þau fá þannig aðstoð við að móta nýja mynd af lífi sem kallar í því skyni að hafa áhrif á framtíð þeirra. Verkefnið nýtur styrks frá FL Group

Dagstofan á barnadeild
Í dagstofunni á barnadeild BUGL

Klókir krakkar er meðferðarform fyrir börn á aldrinum 8–12 ára með kvíðaraskanir og foreldra þeirra. Um er að ræða hugræna atferlismeðferð í hóp. Unnið er út frá vinnubókum barnanna annars vegar og foreldranna hins vegar.

Meðferðin gengur út á fræðslu um eðli kvíða, uppeldisráðgjöf og algeng vandamál tengd kvíða. Að auki eru kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíða barnanna með endurmati á hugsunum og kennt að takast á við óttann með því að mæta honum með stigvaxandi hætti, félagslegri færni, sjálfsöryggi og ákveðni. Einnig er kennt hvernig viðhalda á árangri.

Fjörkálfar er reiðistjórnunarnámskeið sem byggir á hugrænni atferlismeðferð fyrir 8–12 ára börn. Tilgangur þess er að kenna börnum að stjórna reiðiviðbrögðum sínum og draga þannig úr árekstrum við aðra. Foreldrar taka einnig þátt í meðferðinni, en meðal annars er fjallað um upplifun foreldra og nytsamar samskiptaleiðir.

Meðferðin er byggð upp í kringum litla hópa þar sem áherslan er lögð á fræðslu auk þess sem börnin læra á eigin reiðiviðbrögð. Þeim er kennt að meta árangur hegðunar og að setja sér markmið um sjálfsstjórn og áhersla lögð á að kenna börnunum hvernig bregðast eigi við reiði annarra. Markmið námskeiðsins er að börnin læri að reiði er eðlileg tilfinning sem hægt er að stjórna og að foreldrar geti stutt börnin í að nýta þau úrræði sem kennd eru á námskeiðinu.

Ævintýrameðferð á vegum iðjuþjálfunar hefur verið starfrækt á BUGL frá árinu 1998 fyrir börn/unglinga á aldrinum 10–18 ára og er hluti af meðferð bæði á göngu- og legudeild. Grunnhugmyndafræði hennar er upplifunarnám (á ensku experiential learning) sem felst í því að börnin læra  gegnum leik mikilvæga þætti félagsfærni eins og samskipti, samvinnu, traust og að fylgja reglum. Þetta eru nauðsynlegir færniþættir til að börn og unglingar geti eignast og haldið vinum, tekið þátt í íþróttum og tómstundum og liðið vel í skólastarfi jafnt sem daglegu lífi.

Í Ævintýrameðferðinni eru verkefnin fjölbreytileg, ögrandi og stigvaxandi að erfiði, þau skapa spennu, kalla á ágreining og úrlausnir vandamála. Verkefnin reyna á tilfinningalega, líkamlega og vitræna getu barna/unglinga og hafa það markmið að bæta upplifun þeirra á sjálfum sér. Sú reynsla sem börnin öðlast er yfirfærð á daglegt líf sem skilar sér í bættri líðan og hegðun. Unnið er með traust, samskipti, samvinnu, hugrekki og þeim kennd ýmis bjargráð ásamt úrlausn vandamála. 

Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir unglingsstúlkur standa til boða stúlkum sem glíma meðal annars við vandamál tengd átröskun og kvíða. Námskeiðinu er ætlað að efla sjálfstraust og félagslega færni, fá stúlkurnar til að sjá sig í jákvæðara ljósi ásamt því að beina hugsunum þeirra að eigin styrkleikum og efla þá. Gott sjálfstraust og trú á eigin getu eru nauðsynlegir kostir  til að stúlkurnar eflist í samskiptum við jafnaldra sína, njóti sín á eigin forsendum og geti varist óæskilegum áhrifum frá samfélaginu. Áherslan er lögð á  hrós, jákvæð samskipti við aðra og síðast en ekki síst að hafa það skemmtilegt saman.

Vettvangsþjónusta hófst haustið 2004 sem eins árs tilraunaverkefni um heimaþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra eftir útskrift af legudeildum á BUGL. Þessi þjónusta hefur fest sig í sessi sem ,,vettvangsteymi BUGL“ og nær nú bæði til skjólstæðinga göngudeildar og legudeilda. Eins og nafnið gefur til kynna fer teymið á vettvang til að styrkja fjölskylduna á heimavelli.

Unnið er í samvinnu við barnið og fjölskylduna að því að aðlaga færni og nýta þau úrræði sem meðferðaraðilar hafa mælt með í daglegu lífi þeirra. Einnig er fjölskyldunni veitt aðstoð við að auka þátttöku og virkni barnanna í heimilislífi, skóla, tómstundastarfi og við að efla félagsleg tengsl.

 Heimilislegt umhverfi
Lögð er áhersla á að hafa umhverfið
sem heimilislegast.

Fjölskyldubrúin er forvarnarverkefni fyrir börn sem eiga foreldra með geðræn vandamál. Lögð er megináhersla á þarfir barnanna þegar foreldri glímir við geðræna erfiðleika. Þetta er tilboð um stuðning sem viðbót við þá þjónustu sem fjölskyldan hefur. Áhersla er lögð á að skapa jafnræði og traust milli foreldra og stuðningsaðila. Lykilatriði er að styðja foreldrana sjálfa til að ræða við börnin um geðrænan vanda sinn, áhrif hans á fjölskyldulífið og gefa börnunum skýringar við hæfi út frá þörfum barnanna. Foreldrarnir einir geta losað um þá ábyrgð sem barnið telur sig bera á geðrænum vanda foreldra sinna.

Tilgangurinn er að draga úr flutningi geðrænna erfiðleika milli kynslóða, stuðla að sem bestum þroska barnanna, auka trú þeirra á eigin hæfni, efla verndandi þætti í umhverfi barnanna, ásamt því að glæða von um bjartari tíma og styrkja foreldrana í hlutverki sínu. Þetta verkefni hefur nýlega hlotið gæðastyrk LSH.

Innlagnardeildir: Barnadeild og unglingadeild
Barnadeildin er ætluð börnum að 13 ára aldri. Deildin er dagdeild og þar geta dvalið átta börn fimm daga vikunnar. Barnadeildin er lokuð um helgar og á almennum hátíðisdögum. Einnig er deildin lokuð í fimm vikur á hverju sumri. Þurfi barn á sólarhringsinnlögn að halda gistir það með öðru foreldri sínu á unglingadeildinni.

Unglingadeildin er ætluð unglingum að 18 ára aldri. Þar geta dvalið níu unglingar daglangt eða allan sólarhringinn. Deildin er skilgreind sem bráðadeild og er opin allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Á barnadeild og unglingadeild fer fram frekari greining og meðferð á geðrænum vanda barns sem þarfnast innlagnar. Á deildunum er veitt fjölskyldu-, umhverfis-, hóp- og einstaklingsmeðferð. Við innlögn er gerð einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun fyrir sérhvert barn sem endurskoðuð er reglulega. Meðan barnið dvelur á deildinni er lögð áhersla á virka þátttöku foreldra.

Meðan á innlögn stendur sækja börn á skólaskyldualdri annað hvort sinn heimaskóla eða stunda nám í Brúarskóla sem staðsettur er á lóð BUGL. Mikil og góð samvinna er höfð við Brúarskóla við Dalbraut um kennslu og mat á náms- og skólastöðu barnsins.

Brúarskóli við Dalbraut  heyrir undir Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur sem eiga við geðræna erfiðleika að etja og innlögð eru á BUGL. Meginmarkmið kennslunnar er að styðja nemendur í námi, hún er einstaklingsmiðuð og sérhæfð fyrir hvern nemanda í samræmi við námslega stöðu hans, áhuga og getu. Í flestum tilfellum er um samkennslu að ræða í fámennum hópum. Við útskrift fylgir ráðgjafasvið Brúarskóla nemendum eftir og veitir starfsfólki í heimaskóla aðstoð og fræðslu eftir þörfum.

Skólinn starfar á þeim tíma árs sem kennsla fer fram í almennum skólum og er opinn alla virka daga.

Október 2008


 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli